Hoppa yfir valmynd

25.08.2023

Breskur styrkur til vísindarannsókna í samstarfi við Carbfix

Teymi fremstu jarðvísindamanna Skotlands hefur hlotið styrk að fjárhæð einni milljón sterlingspunda (um 170 m.kr.) frá breskum stjórnvöldum til að þróa nýja aðferð til að mæla bindingu koldíoxíðs (CO2) í jarðlögum með Carbfix-aðferðinni.

Carbfix hefur síðan 2007 þróað aðferð til að binda CO2 varanlega í basaltberglögum neðanjarðar, þar sem það umbreytist á skömmum tíma í steindir. 

Vaxandi áhersla er á mikilvægi þess að fanga og binda CO2 til að draga úr styrk gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu og það er talinn nauðsynlegur liður í að ná markmiðum Parísarsáttmálans.

Skosku vísindamennirnir munu í samvinnu við Carbfix prófa nýja aðferð til að rekja CO2 sem fangað er frá Hellisheiðarvirkjun, til viðbótar við þær aðferðir sem þegar er beitt til að staðfesta örugga og varanlega bindingu þess.

Dr. Stuart Gilfillan hjá Edinborgarháskóla og teymi hans munu beita nýrri aðferð til að greina „fingrafar“ CO2 sameinda, en Edinborgarháskóli hefur sótt um einkaleyfi fyrir aðferðina.

Verkefnið nefnist INCLUSION og er samvinnuverkefni Carbfix og SUERC, sem er samstarfsvettvangur skoskra háskóla um rannsóknir á sviði umhverfismála. Það er rannsóknarráð Bretlands á sviði umhverfis og náttúru, Natural Environment Research Council, sem veitir styrkinn.

 

„Verkefnið mun dýpka þekkingu okkar á kolefnisbindingu í basaltjarðlögum með því að leiða saman annars vegar fullkomnustu rannsóknar- og tilraunaaðstöðu sem völ er á og hins vegar fremsta verkefni heims á sviði kolefnisbindingar með steinrenningu,“ segir Dr. Gilfillan. „Auk þess munum við öðlast betri skilning á hvarfgjörnu basalti og öðrum tegundum jarðlaga. Það gerir okkur betur kleift að meta möguleikana á að beita samskonar aðferð til kolefnisbindingar annars staðar í heiminum, til að mynda í Skotlandi.“

 

„Við munum greina efnafræðilegt fingrafar þess CO2 sem Carbfix dælir niður og skoða hvernig það breytist við steinrenningu,“ segir Fin Stuart, framkvæmdastjóri SUERC. „Þannig getum við sýnt fram á hvernig og hve mikið CO2 steinrennur og þannig metið mikið CO2 má binda með þessari aðferð til framtíðar, sem jafnframt getur haft þýðingu fyrir útgáfu kolefniseininga.“

 

„Carbfix spratt upp úr samstarfi háskólasamfélagsins og atvinnulífsins,“ segir Dr. Sandra Ósk Snæbjörnsdóttir, sem leiðir verkefnið fyrir hönd Carbfix. „Samvinna við virtar rannsóknarstofnanir á borð við Edinborgarháskóla dýpkar skilning okkar á þeim náttúrulegu ferlum sem tækni okkar byggist á, byggir ofan á þær aðferðir sem við beitum nú þegar til staðfestingar á kolefnisbindingu, og stuðlar að frekari framþróun tækninnar. Það víkkar líka sjóndeildarhring okkar og opnar dyrnar fyrir næstu kynslóð sérfræðinga á þessu sviði. Við erum stolt af að vinna með þessu framúrskarandi vísindafólki og spennt fyrir niðurstöðunum.“

 

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.