Hoppa yfir valmynd

06.07.2023

Carbfix og Fluor í samstarf um kolefnisföngun og -bindingu

Carbfix og alþjóðlega verkfræði- og verktakafyrirtækið Fluor hafa undirritað viljayfirlýsingu um að bjóða samþætta þjónustu á sviði kolefnisföngunar og -bindingar. Fyrirtækin munu leitast við að vinna gegn loftslagsbreytingum með því að bjóða lausnir sem draga úr losun frá iðnaði sem veldur mikilli losun en hefur fá tækifæri til að draga úr henni með öðrum leiðum, svo sem stál-, ál- og sementsframleiðslu.

Fyrirtækin munu nýta sérhæfða þekkingu hvors um sig til að bjóða viðskiptavinum heildstæðar lausnir til að draga úr losun.

Carbfix-tæknin felur í sér varanlega bindingu með því að steinrenna CO2 í gljúpum basalt-jarðlögum neðanjarðar, þar sem náttúruleg ferli gera að verkum að það umbreytist í kolefnissteindir. Fyrirtækið hefur beitt þessari aðferð með góðum árangri í meira en áratug til að binda CO2 frá Hellisheiðarvirkjun.

Fluor mun beita tækni sem fyrirtækið hefur þróað til kolefnisföngunar sem nefnist Econamine FG PlusSM. Fyrirtækið hefur ennfremur víðtæka reynslu af umsjón með stórum verkefnum hvað varðar verkfræðilega hönnun, innkaup og framkvæmdir.

Viljayfirlýsingin opnar einnig á samvinnu fyrirtækjanna um að fanga CO2 úr andrúmslofti, hvort sem er með lofthreinsun eða lífrænum orkugjöfum, og binda það með Carbfix aðferðinni.

 

„Loftslagsmarkmið heimsins munu ekki nást nema með stórfelldri aukningu á kolefnisföngun og -bindingu,“ segir Edda Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix. „Aðferð okkar til steinrenningar flýtir náttúrulegu ferli til að ná fram öruggri, hagkvæmri og varanlegri kolefnisbindingu. Samstarfið við Fluor stuðlar að vegferð okkar um að árleg kolefnisbinding Carbfix verði talin í milljónum tonna.“

 

„Fluor hefur verið leiðandi á sviði kolefnisföngunar í meira en 35 ár,“ segir Jason Kraynek, forstjóri orkusviðs Fluor. „Samstarfið við Carbfix er næsta skrefið í átt að því að bjóða iðnfyrirtækjum tækniþekkingu og samþættar lausnir þvert á virðiskeðju kolefnisföngunar og -bindingar til að draga úr losun. Saman getum við byggt á árangri Carbfix og haslað tækninni völl á öðrum svæðum í heiminum þar sem jarðfræðilegar aðstæður eru til staðar.“

 

Um Carbfix

Carbfix er brautryðjandi á heimsvísu í bindingu CO2 í bergi neðanjarðar. Fyrirtækið hefur síðan 2012 bundið yfir 90 þúsund tonn af CO2 á Íslandi með eigin tækni sem er örugg, sannreynd, varanleg og hagkvæm. Stefnt er að frekari innleiðingu hennar bæði á Íslandi og erlendis. Coda Terminal verkefni Carbfix, eða „Sódastöðin“, hlaut 115 milljón evru styrk frá Nýsköpunarsjóði Evrópusambandsins og miðar að því að binda 3 milljónir tonna af CO2 á ári í Straumsvík. Nánari upplýsingar um fyrirtækið, tækni þess og verkefni má finna á carbfix.com.

 

Nánari upplýsingar:

Ólafur Teitur Guðnason, yfirmaður samskipta

olafurtg@carbfix.com

s. 856 3535

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.