Hoppa yfir valmynd

14.06.2023

Mikilvægt skref í átt að aukinni kolefnisbindingu og sporlausri Hellisheiðarvirkjun

Álit Skipulagsstofnunar á aukinni kolefnisbindingu Carbfix á Hellisheiði samræmist vel áætlunum Carbfix um að byggja starfsemina upp í skrefum og fylgja vönduðum vöktunar- og viðbragðsáætlunum. Álitið lýtur að umhverfismatsskýrslu sem Carbfix hefur lagt fram um áformin.

Byggt á áralangri reynslu

Carbfix hefur um langt árabil bundið bæði koldíoxíð (CO2) og brennisteinsvetni (H2S) úr útblæstri Hellisheiðarvirkjunar. Nýtt er aðferð sem fyrirtækið þróaði til binda þessar lofttegundir varanlega í jarðlögum sem steindir. Vatn sem Hellisheiðarvirkjun dælir niður í jarðhitageyminn er nýtt sem flutningsmiðill ofan í jörðina þar sem lofttegundirnar falla út sem steindir í basalti með náttúrulegu ferli. Með sömu aðferð hefur Carbfix einnig bundið CO2 sem svissneska fyrirtækið Climeworks fangar úr andrúmsloftinu í Jarðhitagarðinum á Hellisheiði.

 

Tvö lykilverkefni á næstu misserum

Á næstu misserum stendur til að auka starfsemina töluvert, einkum með tveimur lykilverkefnum.

Í fyrsta lagi: Að fanga og binda nær allt CO2 og brennisteinsvetni úr útblæstri Hellisheiðarvirkjunar. Hún verður þar með fyrsta sporlausa jarðvarmavirkjun heims hvað þessar lofttegundir varðar. Í því felst mikill ávinningur: Brennisteinsvetni getur verið skaðlegt fólki, og samdráttur í losun CO2 frá jarðvarmavirkjunum er veigamikill liður í aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum.

Í öðru lagi: Að auka bindingu á CO2 sem fangað er úr andrúmsloftinu, en Climeworks er um þessar mundir að reisa mun afkastameiri lofthreinsistöð en þá sem fyrir er á Hellisheiði.

Hvort verkefni um sig felur í sér að bundin verða um 40 þúsund tonn af CO2 á ári, eða samtals um 80 þúsund tonn. Núverandi binding er þar meðtalin, en hún er innan við 20 þúsund tonn á ári.

 

Byggt upp í skrefum

Enn sem komið er eru ekki önnur fastmótuð áform um aukna kolefnisbindingu á Hellisheiði. Carbfix væntir þess þó að binda CO2 frá fleiri aðilum á næstu árum á Hellisheiði, líklega þó í tiltölulega litlu magni fyrst um sinn.

Í samræmi við þetta hefur Carbfix sótt um starfsleyfi til Umhverfisstofnunar til bindingar á u.þ.b. 100 þúsund tonnum af CO2 á ári á Hellisheiði. Það er aðeins um fjórðungur af því magni sem fjallað er um í umhverfismatinu. Það endurspeglar áform Carbfix um að umsvifin sem umhverfismatið lýtur að komi til sögunnar í smærri skrefum yfir langt tímabil.

Carbfix er sammála því sem kemur fram í áliti Skipulagsstofnunar, að mikilvægt sé að fylgja vöktunar- og viðbragðsáætlunum um mögulega áhrifaþætti starfseminnar, til að mynda möguleg áhrif á grunnvatn og jarðskjálftavirkni. Í umhverfismatsskýrslunni kemur fram að verkefnið feli í sér litla áhættu hvað þetta varðar, en ítarlegar áætlanir um vöktun og viðbrögð fylgdu bæði umhverfismatsskýrslunni og starfsleyfisumsókninni.

 

Álit Skipulagsstofnunar má finna hér:
https://www.skipulag.is/skipulagsstofnun/frettir/nidurdaeling-a-CO2-til-geymslu-i-jordu-a-hellisheidi

 

Nánari upplýsingar veitir:

Ólafur Teitur Guðnason, yfirmaður samskipta hjá Carbfix

olafurtg@carbfix.com

s. 856 3535

 

Um Carbfix:
Carbfix er brautryðjandi á heimsvísu í bindingu CO2 í bergi neðanjarðar. Fyrirtækið hefur síðan 2012 bundið yfir 90 þúsund tonn af CO2 á Íslandi með eigin tækni sem er örugg, sannreynd, varanleg og hagkvæm. Stefnt er að frekari innleiðingu hennar bæði á Íslandi og erlendis. Coda Terminal verkefni Carbfix, eða „Sódastöðin“, hlaut 115 milljón evru styrk frá Nýsköpunarsjóði Evrópusambandsins og miðar að því að binda 3 milljónir tonna af CO2 á ári í Straumsvík. Nánari upplýsingar um fyrirtækið, tækni þess og verkefni má finna á carbfix.com.

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.