Hoppa yfir valmynd

15.06.2023

Ný stjórn Carbfix hf.

Ný stjórn hefur verið skipuð yfir Carbfix hf. til að styðja við markmið fyrirtækisins um að leggja verulega af mörkum til loftslagsmála með því að beita Carbfix-tækninni í auknum mæli, bæði hér á landi sem erlendis, til bindingar á CO2 í jarðlögum.

Hjálögð mynd: Nana Bule

Ný í stjórninni eru Nana Bule, stjórnarformaður, Benedikt K. Magnússon, Brynhildur Davíðsdóttir og Tómas Már Sigurðsson.

 

Nana Bule hefur yfir 20 ára reynslu sem stjórnandi í tæknigeiranum þar sem hún hefur leitt umbreytingu og vöxt. Hún var forstjóri Microsoft í Danmörku og á Íslandi þar til fyrr á þessu ári og starfar nú sem ráðgjafi hjá Goldman Sachs. Hún er formaður stjórnar danska ráðsins um stafræn málefni og leiðir starfshóp danskra stjórnvalda um endurnýjanlega orku. Hún situr í stjórnum Energinet, Arla Foods og Novo Nordisk Foundation.

 

Benedikt K. Magnússon er fjármálastjóri Orkuveitu Reykjavíkur. Hann var áður sviðsstjóri ráðgjafarsviðs KPMG á Íslandi og hefur yfir 20 ára reynslu af ráðgjafarstörfum hjá KPMG, þar sem hann var einnig meðeigandi og stjórnarmaður.

 

Dr. Brynhildur Davíðsdóttir er prófessor í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands. Hún hefur yfir 20 ára reynslu af kennslu, rannsóknum og ráðgjöf þar sem hún hefur m.a. lagt áherslu á orkuskipti, sjálfbærnimat og mótvægisaðgerðir í loftslagsmálum. Hún er varaformaður Loftslagsráðs og situr í stjórn Arctic Circle Foundation. Hún sat í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur árin 2011-2022, síðustu sex árin sem stjórnarformaður.

 

Tómas Már Sigurðsson er forstjóri HS Orku. Hann starfaði áður í 16 ár fyrir Alcoa, m.a. sem forstjóri Alcoa á Íslandi, forstjóri Alcoa í Evrópu og Mið-Austurlöndum og aðstoðarforstjóri Alcoa á heimsvísu. Hann hefur verið formaður Verslunarráðs og setið í stjórnum Samtaka iðnaðarins, Europe Aluminium, Eurometaux og Business Europe.

 

Elín Smáradóttir yfirlögfræðingur Orkuveitu Reykjavíkur situr áfram í stjórninni.

 

 

 

Um Carbfix:
Carbfix er brautryðjandi á heimsvísu í bindingu CO2 í bergi neðanjarðar. Fyrirtækið hefur síðan 2012 bundið yfir 90 þúsund tonn af CO2 á Íslandi með eigin tækni sem er örugg, sannreynd, varanleg og hagkvæm. Stefnt er að frekari innleiðingu hennar bæði á Íslandi og erlendis. Coda Terminal verkefni Carbfix, eða „Sódastöðin“, hlaut 115 milljón evru styrk frá Nýsköpunarsjóði Evrópusambandsins og miðar að því að binda 3 milljónir tonna af CO2 á ári í Straumsvík. Nánari upplýsingar um fyrirtækið, tækni þess og verkefni má finna á carbfix.com.

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.