Hoppa yfir valmynd

03.05.2024

Raunverulegar loftslagsaðgerðir í hlýnandi heimi

Í mars á þessu ári var enn eitt hitametið slegið: Mars var heitasti marsmánuður frá því að mælingar hófust. Það sem meira er, mars er tíundi mánuðurinn í röð þar sem slíkt hitamet er slegið.

Öflug hitabylgja gekk yfir Vestur-Afríku og fór hitinn yfir 40°C. Hitastig sjávar hefur aldrei mælst hærra, og er meðal annars óttast að það muni leiða af sér fleiri og öflugri fellibylji. Vísindafólk óttast jafnframt að hraði loftslagsbreytinga sé meiri en áður var talið og munu næstu misseri skera úr um hvort grundvallarbreytingar séu að eiga sér stað á veðrakerfum jarðar, með stökki í hlýnun sem mun ýta undir enn hættulegri öfgar í veðri.

Jafnvel þótt hraði hlýnunar haldist óbreyttur er aðeins tímaspursmál hvenær við þurfum að takast á við afleiðingarnar af fullum þunga. Hlýnun jarðar heldur áfram. Viðbrögðin við þessari stærstu ógn samtímans eru hins vegar ekki í neinum takti við alvarleikann. Á meðan hitametin falla er losun Íslands á koldíoxíði (CO2 ) enn að aukast, þvert á öll markmið, og losun á hvern íbúa með því mesta sem gerist í heiminum.

Lausnin við loftslagsvánni er til: Hún felst meðal annars í því að beita fjölmörgum lausnum sem allar miða að því að koma í veg fyrir losun milljarða tonna af gróðurhúsalofttegundum, aðallega CO2, út í lofthjúpinn. Til að sporna við þessari hamfarahlýnun þurfum við að breyta okkar neyslumynstri. Orkuskipti vega þar þyngst, auk bættrar orkunýtni, enda er stærsti orsakavaldur loftslagsbreytinga gríðarlegur bruni jarðefnaeldsneytis, en auk þess þarf að fanga, binda og hagnýta CO2 og bæta landnýtingu. Loftslagsmarkmiðum verður ekki náð nema með umfangsmiklum aðgerðum og samstarfi þvert á landamæri.

Coda Terminal í Straumsvík

Carbfix undirbýr nú framkvæmdir við Coda Terminal, móttöku- og geymslustöð fyrir CO2 í Straumsvík. Stöðin verður sú fyrsta sinnar tegundar á heimsvísu en þar verður Carbfix-tæknin sem beitt hefur verið við Hellisheiðarvirkjun síðasta áratug nýtt á stærri skala en áður. Verkefnið er styrkt af nýsköpunarsjóði Evrópusambandsins sem veitti um 16 milljarða til þess árið 2021, en það er stærsti styrkur sem veittur hefur verið til rannsóknar- og nýsköpunarverkefnis hér á landi.

Carbfix-tæknin hermir eftir og flýtir náttúrulegum ferlum: CO2 er leyst í vatni og dælt djúpt í basaltberglög. Með því að leysa það í vatni er komið í veg fyrir uppdrifskraft þess, og er það því bundið í jarðlögum neðanjarðar á öruggan hátt. Yfir um tveggja ára tímabil gengur CO2 í efnasamband við málma í berginu og myndar steindir – en yfir 99% alls CO2 á jörðinni eru bundin í bergi. Aðferðin er örugg, varanleg, hagkvæm og vísindalega sannreynd í gegnum alþjóðlegt samstarf. Tilgangur og markmið Carbfix er að hafa raunveruleg jákvæð áhrif á loftslag með öruggum og sönnuðum aðferðum við að binda CO2 í stein með því að útvíkka tæknina á heimsvísu.

Coda Terminal mun taka á móti CO2 sem fangað er úr útblæstri frá evrópskum iðnaði með illviðráðanlega losun (e. hard to abate), s.s. sement, stál o.fl., og flutt á fljótandi formi með skipum til Straumsvíkur þar sem því er dælt í geymslutanka við Straumsvíkurhöfn. Þaðan er því umbreytt í gas og veitt um lagnir að niðurdælingarholum þar sem því er dælt niður í jarðlög. Auk þess er gert ráð fyrir að hægt verði að nýta innviði Coda Terminal til að dæla niður CO2 sem er fangað frá innlendum iðnaði og CO2 sem fangað er beint úr andrúmslofti.

Ferlið krefst engra viðbættra efna – aðeins CO2 , basalts og vatns, sem gegnir hlutverki uppleysingar- og flutningsmiðils fyrir CO2 fram yfir steindabindingu. Vatnið verður tekið úr öflugum ferskvatnsstraumi sem rennur til sjávar við Straumsvík. Því verður síðan öllu skilað aftur ofan í jörðina, á sama svæði en meira dýpi. Verkefnið verður byggt upp í áföngum. Undirbúningur framkvæmdarinnar hófst árið 2019, en fór í fullan gang um mitt ár 2022 með forhönnun, rannsóknum á berggrunni, samtali við hagaðila, vinnu við leyfisferla og skipulagsvinnu.

Hluti af því ferli eru hermanir á ýmsum sviðsmyndum auk þess sem líkön hafa verið kvörðuð út frá rannsóknum og gögnum sem aflað hefur verið á undirbúningstímanum. Þetta gerir kleift að aðlaga hönnun og rekstur stöðvarinnar með það að markmiði stýra og lágmarka áhættu. Fyrir vikið hafa ýmsar hönnunar- og rekstrarforsendur tekið breytingum á verkefnatímanum eins og eðlilegt er. Áætlað er að hefja rekstur árið 2027 og er gert ráð fyrir að Coda Terminal verði fullbyggt árið 2032 og geti þá dælt niður allt að 3 milljónum tonna af CO2 á ári. Á næstu vikum mun umhverfismat framkvæmdarinnar verða birt og munu þá upplýsingar um umhverfisáhrif hennar liggja fyrir. Við hlökkum til að eiga opið og málefnalegt samtal um verkefnið.

Eitt stærsta loftslagsverkefni Íslands

Hver er raunverulegur ávinningur Coda Terminal fyrir loftslagið? Heildarniðurstaða vistferilsgreiningar verkefnisins sýnir að verkefnið mun tryggja samdrátt í losun á a.m.k. 72 milljónum tonna af CO2 . Þetta samsvarar því að fyrir hver 1.000 kg af CO2 sem er dælt niður er komið í veg fyrir losun 946 kg af CO2 , sé allt tekið með í reikninginn.

Til að setja ávinninginn í samhengi má horfa til framreikninga Umhverfisstofnunar á áætlaðri losun Íslands til ársins 2050 miðað við núverandi áform um samdrátt í losun. Heildarkolefnisbinding Coda Terminal yfir 30 ára líftíma verkefnisins samsvarar 65% af uppsafnaðri losun Íslands án landnotkunar á sama tímabili. Óumdeilt er að loftslagsmarkmið Parísarsamkomulagsins munu ekki nást án stórfelldrar föngunar og niðurdælingar á CO2 í berglög. Samkvæmt IPCC þarf að auka umfang slíkrar starfsemi tæplega 70-falt á heimsvísu til ársins 2050 ef takmarka á hlýnun jarðar við 1,5°C, en í þeirri sviðsmynd er jafnframt gert ráð fyrir miklum samhliða árangri í uppbyggingu endurnýjanlegra orkugjafa.

Það er því ekki að ástæðulausu sem þjóðir heims leggja nú stóraukna áherslu á uppbyggingu móttöku- og geymslustöðva fyrir CO2 . Í nýlegri yfirlýsingu framkvæmdastjórnar ESB kemur fram að slík verkefni séu algjörlega nauðsynleg til að ná markmiðum um kolefnishlutleysi og að „bráð þörf“ (e. urgent need) sé á því að taka ný niðurdælingarsvæði í notkun fyrir árið 2030. Með hliðsjón af þessu hvetur framkvæmdastjórnin aðildarríkin til að styðja við uppbyggingu verkefna sem fela í sér föngun, flutning og niðurdælingu á CO2 .

Ísland er því í kjörstöðu að bregðast við því kalli og leggja sitt af mörkum til að sameiginleg loftslagsmarkmið Evrópu náist. Uppbygging Coda Terminal í Straumsvík er okkar svar við því kalli.

Grein skrifuðu Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix og Sandra Ósk Snæbjörnsdóttir yfirvísindakona Carbfix sem birtist í Morgunblaðinu 2. maí 2024.

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.