Hoppa yfir valmynd

Umhverfismat Coda Terminal

Carbfix teymið fagnar birtingu á umhverfismati Coda Terminal sem er fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Þessi síða geymir allar helstu upplýsingar um áhrif Coda Terminal í Straumsvík á samfélag og umhverfi.

Umhverfismat er mjög gagnleg leið til að útlista áhrif framkvæmda sem eru í athugun og mynda grundvöll til að ræða þau áhrif sem verða á samfélag, efnahag, náttúru og umhverfi. Carbfix byggir verkefni sín á grundvelli vísinda, öryggis og raunverulegra jákvæðra áhrifa á samfélagið og við viljum deila því sem við höfum kannað í tengslum við Coda Terminal með sem flestum. 

Við hvetjum Carbfix öll sem áhuga hafa að kynna sér framkvæmdina hér.

Hvað er Coda Terminal?

Carbfix undirbýr nú framkvæmdir við Coda Terminal, móttöku- og geymslustöð fyrir koldíoxíð (CO2) í Straumsvík. Stöðin verður fyrsta sinnar tegundar á heimsvísu en þar verður Carbfix tækninni beitt til að dæla CO2 niður í berglög og til varanlegrar geymslu. CO2 verður flutt hingað til lands á fljótandi formi með sérhönnuðum skipum sem gert er ráð fyrir að gangi fyrir vistvænu eldsneyti og verða innviðir til staðar á höfninni fyrir landtengingu skipanna. Jafnframt verður mögulegt að dæla niður CO2 sem fangað er beint úr andrúmslofti og frá innlendum iðnaði.

Það CO2 sem til stendur að flytja verður fangað frá evrópskum iðnaði, ekki síst frá losun sem stafar frá iðnferlum á borð við framleiðslu á áli, stáli og sementi sem ekki er hægt að útrýma með orkuskiptum eða öðrum leiðum. Það CO2 verður flutt í Coda Terminal og dælt í berggrunninn í Straumsvík til varanlegrar geymslu á allt að þremur milljónum tonna af CO2 á ári og þannig komið í veg fyrir áhrif þess á loftslagið. Með uppbyggingu og rekstri Coda Terminal er sýnt fram á skölun Carbfix tækninnar frá tugþúsundum tonna í milljónir tonna af bindingu CO2, sem er ein ástæða þess að Nýsköpunarsjóður Evrópusambandsins veitti verkefninu styrk.

Nafnið Coda varð fyrir valinu þar sem það táknar niðurlagskafla tónverks sem lýkur tónverkinu á skýran og áhrifaríkan hátt. Það endurspeglar vel markmið Coda Terminal.

Af hverju er verið að ráðast í þetta verkefni Coda Terminal? 

Breytingar á loftslagi virða engin landamæri og því er þörf á ríkri samvinnu þjóða til draga stórlega úr losun koldíoxíðs (CO2). Auknum árangri í loftslagsaðgerðum má ná með uppbyggingu móttöku- og geymslustöðva fyrir CO2 þar sem aðstæður eru hentugar. Í því felst föngun á CO2 úr útblæstri og uppbyging á skilvirku flutningskerfi fyrir CO2 með skipum, lögnum og niðurdælingu þess í hentug jarðlög.

Coda Terminal styður aðgerðaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum með samstarfi sínu við álver Rio Tinto í Straumsvík, þar sem áhersla er lögð á föngun og bindingu kolefnis frá stóriðju á Íslandi og er jafnframt mikilvægt framlag til innlendrar og alþjóðlegrar kolefnisbindingar. Framkvæmdin styður við eftirfarandi heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna:

Hvað er verið að meta?

Umhverfismatið tekur til umhverfisáhrifa frá því að tekið er við CO2 frá skipum í Straumsvík og þar til að það hefur steinrunnið neðanjarðar. Áhrif af föngun CO2 og flutningi þess til Straumsvíkur er ekki hluti af umhverfismati Coda Terminal en fjallað er um þessa þætti sem tengdar framkvæmdir.

Undirbúningur Coda Terminal hófst um mitt ár 2021 með forhönnun, samtali við hagsmunaaðila og vinnu við leyfisferla. Rannsóknarboranir fóru fram í janúar 2023 og í ágúst sama ár. Áætlað er að rekstur geti hafist árið 2027 og að Coda Terminal verði byggt upp í áföngum og verði fullbyggt árið 2032 en þá er áætlað að það geti tekið við og bundið varanlega um þrjár milljónir tonna af CO2 árlega. Rannsóknir og eftirlit Carbfix á svæðinu munu halda áfram á framkvæmda- og rekstrartíma.

Fyrirhugað framkvæmdasvæði Coda Terminal

Á kortinu hér að neðan má sjá hugsanlegar staðsetningar borteiga og fyrirhugaða legu lagna ásamt vegslóða að þeim. Staðsetning borteiga, lagna og vegslóða kann að hliðrast til við endanlega hönnun þeirra. Framkvæmdasvæðið nær til þess svæðis sem mannvirki framkvæmdarinnar falla undir, en gert er ráð fyrir að svæði sem raskast muni að hámarki ná 15 m út fyrir miðlínu lagnabeltis og lóðir borteiga. Framkvæmdasvæðið er í eigu þriggja aðila: Rio Tinto, Hafnarfjarðarbæjar og Ríkissjóðs Íslands. Landeigendur eru upplýstir og samþykkir því að land þeirra sé tekið fyrir í umhverfismati.

Coda Terminal verður byggt upp í áföngum yfir nokkurra ára skeið og hér á myndbandinu má sjá hvernig svæðið kemur til með að líta út í umhverfinu.

Hvernig varð Straumsvík fyrir valinu?

Í nágrenni Straumsvíkur er ferskt basalt og öflugir grunnvatnsstraumar sem henta vel fyrir Carbfix tæknina sem nýtir vatn sem flutningsmiðil fyrir CO2. Í Straumsvík er jafnframt aðgengi að iðnaðarsvæði og skipulögðum iðnaðarlóðum, en með því að staðsetja starfsemina á iðnaðarsvæði var litið svo á að lágmarka mætti jarðrask. Coda Terminal teygir sig þó á óbyggt svæði en takmarkar ekki aðra starfsemi, svo sem útivist og skógrækt.

Framkvæmdasvæðið samanstendur af þegar röskuðu, manngerðu landi, kjarrskóga- og lynghraunavist og stendur á nútímahrauni. Framkvæmdin mun breyta landnotkun framkvæmdasvæðis að hluta úr óbyggðu svæði og athafnasvæði í iðnaðarsvæði þar sem mannvirki Coda Terminal verða á skilgreindum iðnaðarreitum í samræmi við breytingu á aðalskipulagi svæðisins.

Mynd hér fyrir neðan: Horft yfir framkvæmdasvæðið, í suðausturátt frá álverinu í Straumsvík. Við sjóndeildarhringinn má sjá Bláfjöll Mynd: EFLA, 2023.

Í desember 2022 undirrituðu Carbfix, Coda Terminal, Hafnarfjarðarbær og Rio Tinto viljayfirlýsingu um uppbyggingu Coda Terminal. Hluti fyrirhugaðs framkvæmdasvæðis er í landi Skógræktarinnar í Straumi. Carbfix og Skógræktin hafa saman gefið út viljayfirlýsingu um samstarf um umhverfis- og loftslagsvæna landnotkun á landi Skógræktarinnar í Straumi og var hún undirrituð í september 2023.

Staðhættir

Innviðir sem byggja þarf upp fyrir starfsemina eru geymslutankar fyrir CO2, affermingarbúnaður og lykilbygging á hafnarsvæði, ásamt stjórnbyggingum og niðurdælingarholum á borteigum. Niðurdælingarholur verða allt að átta saman á borteig og varanlegt skýli yfir hverri borholu. Þá verða lagðir þjónustuvegir að hverjum borteig og lagnir sem munu flytja CO2 frá höfninni að borteigum.

Coda Terminal verður byggð upp í áföngum. Undirbúningur framkvæmdarinnar hófst um mitt ár 2022 með forhönnun, samtali við hagaðila, vinnu við leyfisferla og skipulagsvinnu. Áætlað er að hefja rekstur árið 2027 og er gert ráð fyrir að Coda Terminal verði fullbyggt árið 2032 og geti þá dælt niður allt að 3 milljónum tonna af CO2 á ári. Gert verður grein fyrir rekstrartímabili í starfsleyfi til geymslu CO2. Sjá hér fyrir neðan einfölda skýringarmynd af ferli niðurdælingar á CO2 í Coda Terminal.

Hafnarsvæðið

Hafnarfjarðarhöfn og Hafnarfjarðarbær vinna sem stendur að umhverfismati fyrir stækkun Straumsvíkurhafnar og kemur sú stækkun til með að nýtast þeim flutningaskipum sem flytja munu CO2 hingað til lands til niðurdælingar. Framkvæmdir við stækkun hafnarinnar eru á forræði Hafnarfjarðarhafnar og Hafnarfjarðarbæjar og eru ekki hluti af þessu umhverfismati. Í umhverfismati Coda Terminal er því aðeins fjallað um framkvæmdina sem tengda framkvæmd.

Hér fyrir neðan má sjá yfirlitsmynd af fyrirhugaðri staðsetningu geymslutanka og lykilbyggingu við stækkaða höfn í Straumsvík. Til vinstri á mynd sést tankskip liggja við viðlegukant ætlaður Carbfix og skip á nýjum viðlegukanti sem er fyrirhugaður hjá Hafnarfjarðarhöfn en tengist ekki starfsemi Carbfix. Í bakgrunni sést álverið í Straumsvík. Hér fyrir neðan má nálgast 3D útfærslu að Höfninni.

Tímalína og áfangaskipting

Coda Terminal verður byggð í fjórum áföngum: Áætlað er að hefja rekstur árið 2027 en gert er ráð fyrir að móttöku- og geymslustöðin verði fullbyggð árið 2032 og geti þá tekið við og bundið um 3 milljón tonn af CO2 á ári. Það samsvarar meira en helmingi af árlegri losun Íslands.

*Miðað við að jarðsjór sé notaður til niðurdælingar í 4. áfanga verkefnisins

Áhrif Coda Terminal á umhverfið

Coda Terminal stuðlar að verulega jákvæðum áhrifum á loftslag og óverulegum áhrifum á fjölda umhverfisþátta, en nokkur óvissa ríkir um áhrif framkvæmdarinnar á grunnvatn og verndarsvæði og náttúruminjar. Draga má úr þeirri óvissu með mótvægisaðgerðum og stöðugri uppskölun framkvæmdarinnar.

Hvernig munum við bregðast við?

Okkar megin mótvægisaðgerðir eru að byggja upp Coda Terminal í skrefum með 18 mánaða millibili. En hvert skref mun byggja á rekstrarreynslu og áframhaldandi gagnasöfnun sem mun nýtast til að ítra frekar niðurdælingarferlið. Þá verður unnin mjög ítarleg vöktunaráætlun sem má sjá hér að neðan:

Niðurstaða umhverfismats & mótvægisaðgerðir

Náttúrufar

Niðurstaða umhverfismats

Áhrif Coda Terminal á loftslag eru bein og varanleg, þar sem geymsla CO2 í berggrunninum er varanleg. Fyrir hver 1000 kg af CO2 sem bundin eru í jörðu minnkar magn CO2 í andrúmsloftinu um 946 kg. Er það mat framkvæmdaraðila að áhrif framkvæmdarinnar á loftslag verði verulega jákvæð. Nánar um umhverfisþáttinn hér.

Mótvægisaðgerðir

Mótvægisaðgerðir við gróðurhúsaáhrifum tengdra framkvæmda Coda Terminal, þ.e. sjóflutninga, eru að nýta skip sem nota umhverfisvænt eldsneyti. Almennar öryggisráðstafanir eru bestu mótvægisaðgerðir gegn leka, en í því felst að fylgja vel skilgreindum starfsferlum, fylgjast með ef lagnir eða búnaður þarfnast viðhalds og bregðast við þegar þarf á að halda.

Niðurstaða umhverfismats

Framkvæmdin kemur til með að hafa varanleg áhrif á poruhluta (e. porosity) í geymslugeymi sem mun minnka vegna steindabindingar CO2. Þó sýna líkanútreikningar að minna en 1% af porum í jarðlögum geymslugeymisins gætu fyllst vegna steinrenningar CO2 á líftíma verkefnisins. Framkvæmdin mun hafa tímabundin og afturkræf áhrif á styrk uppleysts CO2 í geymslugeyminum innan geymslusvæðisins sem mun hækka, auk þess sem hitastig í geymslugeyminum mun lækka og þrýstingur innan geymslusvæðisins aukast. Framkvæmdin mun hafa óbein áhrif á seltu innan geymslusvæðisins, bæði aukningu og minnkun. Það er mat framkvæmdaraðila að áhrif framkvæmdarinnar á geymslugeymi verði óveruleg.

Mótvægisaðgerðir

Helstu mótvægisaðgerðir sem framkvæmdaraðili hyggur á eru þessar:

1) Minnkun óvissu á lykilstærðum í geymslugeyminum með frekari rannsóknum. Samhliða því verða líkön af svæðinu uppfærð með nýjustu upplýsingum til að minnka óvissu á niðurstöðum hermana, sem og til að betrumbæta áhættumat af geymslugeyminum vegna framkvæmdarinnar. Einnig verða efnahvörf, s.s. steinrenning CO2, hermd samhliða flæði í líkönum af svæðinu, sem mun enn frekar minnka óvissu á niðurstöðum hermana af niðurdælingu á svæðinu. Slíkar upplýsingar, ásamt uppfærðum líkönum, verða notaðar til grundvallar stýringu á niðurdælingu á svæðinu. Einnig verður farið í næmnisgreiningu og óvissugreiningu á líkönum, til að afmarka betur hvar helstu óvissupunktar í hermunum liggja.

2) Gerð nákvæmrar vöktunaráætlunar fyrir geymslusvæðið og nágrenni, þar sem meðal annars verður fylgst með breytingum á þrýstingi, hitastigi, seltu og leysni CO2. Vöktun á niðurdælingu og rekstrarreynsla af svæðinu munu jafnframt nýtast svo hægt sé að bregðast við breytingum sem kunna að verða og mun áfangaskipting verkefnisins jafnframt taka mið af því. Vöktunaráætlun á svæðinu vegna niðurdælingar framkvæmdaraðila liggur fyrir. Einnig mun vöktun nýtast til að sannreyna niðurstöður líkana af svæðinu, og hjálpa við uppfærslur á þeim.

3) Fyrirhugað geymslusvæði verður byggt upp í jöfnum skrefum með góðu millibili. Þannig gefst tími til að safna gögnum og meta þau áður en næstu áfangar koma inn og nýta reynsluna af fyrri áföngum inn í þá seinni.

Niðurstaða umhverfismats

Áhrif tengdra framkvæmda, sjóflutninga, eru metin minniháttar með tilliti til umfangs svæðis og viðkvæmni þess fyrir breytingum. Þau eru tímabundin og afturkræf auk þess að vera staðbundin. Að teknu tilliti til þess að loftgæði á framkvæmdasvæðinu eru almennt góð og að gert er ráð fyrir landtengingu fyrir flutningaskip CO2, er það mat framkvæmdaraðila að áhrif framkvæmdar á staðbundin loftgæði verði óveruleg.

Mótvægisaðgerðir

Coda Terminal er ekki talin hafa nein áhrif á staðbundin loftgæði en sjóflutningar, sem eru tengdar framkvæmdir, geta haft áhrif. Fyrirhugaðar framkvæmdir á Straumsvíkurhöfn og uppbygging á innviðum fyrir landtengingu er mótvægisaðgerð sem er m.a. í þágu staðbundinna loftgæða.

Til framtíðar er að auki ætlunin að skip sem notuð verða til flutninga á CO2 til Straumsvíkur verði hönnuð með tilliti til þess að takmarka útblástur og mengun. Gert er ráð fyrir að notað verði grænt eldsneyti fyrir þau í sem hæstu hlutfalli, með notkun á metanóli og að lokum eingöngu með því að skipta út skipaolíu fyrir lífdísil. Hægt verður að fylgjast vel með loftgæðamælum á framkvæmdasvæði og bera niðurstöður frá þeim við grunnástand fyrir framkvæmd.

Niðurstaða umhverfismatsins

Framkvæmdin kemur til með að hafa staðbundin en varanleg og óafturkræf áhrif á þær jarðmyndanir sem kunna að raskast. Jarðmyndanir á framkvæmdasvæðinu eru fyrst og fremst nútímahraun sem búa yfir sérstakri vernd samkvæmt 61. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013.

Stærsti hluti framkvæmdasvæðisins er þó talsvert raskaður. Með hliðsjón af lögum um náttúruvernd og einkennum áhrifa sem m.a. eru varanleg og óafturkræf, er það mat framkvæmdaraðila að áhrif framkvæmdarinnar á jarðmyndanir verði nokkuð neikvæð.

Mótvægisaðgerðir

Framkvæmdaraðili leggur ekki til sérstakar mótvægisaðgerðir en vandað verður til verka við frágang að framkvæmdatíma loknum, auk þess sem raski verðir haldið í lágmarki á framkvæmdatíma og eftir að framkvæmdum lýkur.

Niðurstaða umhverfismatsins

Framkvæmdin kemur til með að hafa bein, varanleg og óafturkræf áhrif á þær vistgerðir sem kunna að raskast. Hins vegar tekur framkvæmdin ekki til umfangsmikils svæðis þegar litið er á heildar útbreiðslu vistgerða á svæðinu sem býr yfir háu verndargildi.

Með valkostagreiningu hefur framkvæmdaraðili takmarkað áhrif á vistgerðir eins og kostur er, og með ríkri áherslu á frágang, óþarfa rask og landgræðslu að framkvæmdum loknum eru áhrifin að öllu leyti takmörkuð við athafnasvæði á framkvæmdatíma og svæði sem þarf undir mannvirki á rekstrartíma. Vegna þess að þær vistgerðir sem geta raskast búa yfir háu verndargildi og sérstakri vernd samkvæmt 61. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013 er það mat framkvæmdaraðila að áhrif framkvæmdarinnar á vistgerðir verði nokkuð neikvæð.

Mótvægisaðgerðir

Áður en framkvæmdir hefjast mun framkvæmdaraðili fá líffræðing til þess að athuga hvort fágætar plöntutegundir gætu leynst á því svæði sem muni raskast og hvort þurfi að aðlaga staðsetningar eftir þeim. Á framkvæmdatíma mun framkvæmdaraðili koma í veg fyrir óþarfa rask og leggja áherslu á frágang þannig að umhverfi borteiganna blandist nærumhverfi sínu á rekstrartíma.

Niðurstaða umhverfismatsins

Áhrif Coda Terminal á verndarsvæði og náttúruminjar eru að mestu óbein, þar sem verndarsvæði eru utan sjálfs framkvæmdasvæðisins. Áhrif vatnsöflunar á grunnvatnsgeyminn og þ.a.l. á grunnvatnsborð og seltu- og hitastig tjarna við Straumsvík eru hins vegar bein og varanleg svo lengi sem starfsemin verður til staðar en áhrifin verða afturkræf ef að vinnslunni/niðurdælingunni yrði hætt. Óvíst er hvort seltu- og hitabreytingar geti valdið neikvæðum áhrifum á tjarnirnar sem kallar á vöktun þessara þátta áður en framkvæmdir hefjast og á rekstrartíma Coda Terminal.

Framkvæmdin er ólíkleg til að hafa veruleg neikvæð áhrif á forsendur verndar nálægra verndarsvæða en ákveðin óvissa ríkir um áhrif framkvæmdarinnar á lífríki tjarna í Straumsvík sem kallar á vöktun þeirra þátta sem geta haft áhrif á lífríkið í tjörnunum. Vegna þessa er það mat framkvæmdaraðila að áhrif framkvæmdarinnar á verndarsvæði og náttúruminjar verði óveruleg. Þar sem Straumsvíkurtjarnirnar eru á C-lista náttúruminjaskrár er það aftur á móti mat framkvæmdaraðila að áhrif á þær verði talsverð neikvæð en einnig ríkir óvissa um áhrifin.

Mótvægisaðgerðir

Þar sem vísbendingar eru um mögulegan niðurdrátt grunnvatnsborðs við tjarnir í Straumsvík þarf samhliða rannsóknum framundan og uppbyggingarfasa Coda Terminal að rannsaka tjarnirnar nánar með hliðsjón af tengingu þeirra við grunnvatn og vakta vatnsborð í þeim. Rýna þarf nánar í þær heimildir sem fyrir liggja um stöðuvötnin austan af vinnslusvæðinu, bæta gagnasöfnun og -greiningu eftir þörfum og álykta um hvernig samband vatnanna er við grunnvatn og hversu mikilla áhrifa megi þá ætla samhliða uppbyggingaráformum Carbfix.

Niðurstaða umhverfismats:

Líkanreikningar benda til niðurdráttar við vinnsluholur Coda Terminal og út fyrir vinnslusvæðið, m.a. við Straumsvíkurtjarnirnar en þó er nokkur óvissa gagnvart tjörnunum þar sem líkanið byggir á takmörkuðum gögnum og er enn í þróun. Við Ástjörn, Hvaleyrarvatn og Urriðavatn reiknast hækkun grunnvatnsborðs vegna þrýstiáhrifa en grunnvatnsborð þar liggur frá náttúrunnar hendi lágt.

Grunnvatnsvinnsla og niðurdæling mun valda beinum áhrifum á grunnvatnsborð sem verða varanleg svo lengi sem starfsemin verður til staðar, en áhrifin verða afturkræf ef vinnslunni og niðurdælingunni yrði hætt eða vinnslufyrirkomulagi breytt svo þörf sé á minna vatni. Grunnvatnsvinnslan mun samkvæmt líkanútreikningum valda lítillegri hækkun á seltu- og hitastigi í grunnvatnskerfinu en þó meiri í dýpri hluta þess.

Áhrifin verða varanleg svo lengi sem starfsemin verður til staðar en verða afturkræf ef vinnslunni/niðurdælingunni yrði hætt. Breytingarnar taka til umfangsmikils svæðis en mjög lítill hluti þess kann að vera viðkvæmur fyrir breytingum (efsti hluti ferskvatnsgeymisins). Til viðbótar verða einungis fáir aðilar fyrir áhrifum. Niðurstöður áhrifamats gefa til kynna að miðað við hámarksstyrk snefilefna séu áhrif þeirra í flestum tilvikum hverfandi og hafa ekki áhrif á vatnshlotið.

Framkvæmdaraðili telur því að áhrifin verði óveruleg en einnig ríkir óvissa um þau.

Mótvægisaðgerðir:

Þörf er á áframhaldandi rannsóknum á grunnvatnsgeyminum til að bæta við þekkingu um hann en einnig til að bæta og draga úr óvissu grunnvatnslíkansins. Því verður rannsóknum haldið áfram á framkvæmda- og rekstrartíma Coda Terminal. Framkvæmdin verður byggð upp í áföngum, með rannsóknum og vöktun áhrifa af hverjum áfanga. Þannig öðlast framkvæmdaraðili tækifæri til að aðlaga starfsemina að niðurstöðum rannsókna og vöktun úr fyrri áföngum til að lágmarka áhrif á grunnvatn og aðra umhverfisþætti.

Félags- og hagfræðilegir þættir

Niðurstaða umhverfismatsins

Fyrirhuguð framkvæmd er talin falla í flokk 2 undir 4. gr. reglna um viðbúnað og viðbrögð við jarðskjálftavá vegna losunar á vökva í jörðu um borholur (reglur nr. OS-2016-R01-01) miðað við niðurstöður frummats. Áhrifin eru metin minniháttar með tilliti til umfangs svæðis, og eru tímabundin og afturkræf, en geta verið stað- eða svæðisbundin. Niðurstaðan er því, í samræmi við fyrrgreindar reglur, að hætta á finnanlegri skjálftavirkni sé óveruleg.

Mótvægisaðgerðir

Þrátt fyrir að niðurstaða frummats ÍSOR á jarðskjálftahættu fyrir geymslusvæðið hafi verið að: Hætta á finnanlegri skjálftavirkni er óveruleg og því ekki gerð krafa um rannsóknaráætlun sbr. reglur nr. OS-2016-R01-01, verður náið fylgst með jarðskjálftavirkni. Bæði fyrir og á meðan niðurdælingu CO2 stendur. Auk þess verður geymslusvæðið byggt upp í skrefum.

Niðurstaða umhverfismatsins

Áhrifin eru metin minniháttar með tilliti til umfangs svæðis og viðkvæmni þess fyrir breytingum ásamt þeim fjölda fólks sem kann að verða fyrir mögulegum áhrifum. Möguleg áhrif eru metin tímabundin og að mestu afturkræf. Þá eru áhrifin metin staðbundin. Með tilliti til ofangreindra áhrifa og mótvægisaðgerða er það mat framkvæmdaraðila að áhrifin verði óveruleg.

Mótvægisaðgerðir

Varnarveggur verður byggður umhverfis geymslutanka CO2, auk þess sem grjótgarður milli sjávar og hafnarbakka verður hannaður með næga lekt til að CO2 geti lekið til sjávar. Söfnunarstaður í allt að tveggja metra hæð verður skilgreindur og merktur, til að koma í veg fyrir slys á fólki ef til leka kemur. Ekki er talin þörf á mótvægisaðgerðum vegna hljóðvistar.

Niðurstaða umhverfismatsins

Framkvæmdin kemur til með að hafa bein og neikvæð áhrif á ásýnd lands á þeim borteigum þar sem raska þarf áður óröskuðu hrauni og vistgerðum. Með góðum frágangi og landgræðslu á borteigum má þó milda áhrifin og eru þau að öllu afturkræf, það er að rekstrartíma loknum er hægt að koma landslaginu aftur til fyrra horfs með enn frekari landgræðslu og landmótun.

Áhrifin eru að mestu staðbundin og taka ekki til umfangsmikils svæðis. Framkvæmdin er á mörkum landslagsheildar sem einkennist af manngerðum eiginleikum (7.4.1 Höfuðborgarsvæðið) og getur ekki talist viðkvæm fyrir breytingum. Vegna þessa er það mat framkvæmdaraðila að áhrif framkvæmdarinnar á landslag og ásýnd verði óveruleg.

Mótvægisaðgerðir

Lögð verður rík áhersla á góðan frágang að framkvæmdum loknum auk landmótunar og landgræðslu á borteigum. Stuðst verður við landgræðsluaðferðir sem hafa reynst árangursríkar í verkefnum Orkuveitunnar og Orku náttúrunnar á Hellisheiði og verður landslagið þannig fært aftur til fyrra horfs og ásýndaráhrif takmörkuð.

Niðurstaða umhverfismatsins

Framkvæmdin gæti komið til með að hafa bein, varanleg og neikvæð áhrif á eina fornleif, Gerðisstíg. Með mótvægisaðgerðum mun framkvæmdaraðili sjá til þess að stuðlað verði áfram að aðgengi um stíginn. Að teknu tilliti til mótvægisaðgerða er það því mat framkvæmdaraðila að áhrif framkvæmdarinnar á menningarminjar verði óveruleg.

Mótvægisaðgerðir

Lögð verður rík áhersla á frágang og landgræðslu að framkvæmdatíma loknum og verða borteigar opnir almenningi að loknum framkvæmdum. Framkvæmdin kemur því ekki til með að hefta aðgengi um Gerðisstíg heldur mun framkvæmdaraðili sjá til þess að koma stígnum í samt horf að framkvæmdum loknum með landmótun og landgræðslu. Endanleg staðsetning borteiga, lega lagna og vega verður borin undir Minjastofnun Íslands.

Áður en framkvæmdir hefjast verður auk þess fenginn fornleifafræðingur til að kortleggja Gerðisstíg í grennd við og á lóðum borteiga sem kunna að skarast á við stíginn. Verður þetta gert í samráði við Minjastofnun Íslands og sótt um leyfi ef raska þarf Gerðisstíg eða öðrum fornminjum.

Ef fornminjar sem áður voru ókunnar finnast við framkvæmd verður framkvæmd stöðvuð tafarlaust og fundurinn tilkynntur til Minjastofnunar Íslands sem ákveður hvort verki megi fram halda og með hvaða skilmálum, samkvæmt 24 gr. laga nr. 80/2012.

Niðurstaða umhverfismatsins

Framkvæmdin kemur til með að hafa óbein, jákvæð áhrif á félagshagfræðilega þætti. Framkvæmdin kemur til með að hafa varanleg og sammögnuð áhrif á þessa þætti, sér í lagi í formi aukinnar verðmætasköpunar og jákvæðra áhrifa á ferðaþjónustu nærsamfélagsins og ímynd Íslands í alþjóðasamfélaginu. Því er það mat framkvæmdaraðila að áhrif framkvæmdarinnar á efnahag og ferðaþjónustu verði talsverð jákvæð.

Mótvægisaðgerðir

Ekki er gert ráð fyrir sérstökum mótvægisaðgerðum vegna áhrifa framkvæmdarinnar á efnahag og ferðaþjónustu.

Vilt þú senda inn umsögn?

Umhverfismatsskýrsla er nú kynnt almenningi, hagsmunaaðilum og lögbundnum umsagnaraðilum um sex vikna skeið. Á þessu tímabili er umhverfismatið opið öllum til umsagnar og á sama tíma mun Skipulagsstofnun leita umsagna lögboðinna umsagnaraðila. Skriflegar umsagnir skulu sendar í gegnum Skipulagsgáttina (http://skipulagsgatt.is), með tölvupósti á netfangið skipulag@skipulag.is eða með bréfpósti til Skipulagsstofnunar, Borgartúni 7b, 105 Reykjavík. Nánar um samráðsferli Carbfix er að finna hér.