Hoppa yfir valmynd

14.06.2024

Vottaðar og sannreyndar aðferðir Carbfix í forystu varanlegrar geymslu CO2 

Óumdeilt er að loftslagsmarkmið Parísarsamkomulagsins nást ekki án þess að komið sé í veg fyrir gríðarlega losun koldíoxíðs (CO2) - sem fyrst og fremst stafar af bruna jarðefnaeldsneytis á borð við kol, olíu og jarðgas.

Á ári hverju losum við um 40 milljarða tonna af CO2 út í andrúmsloftið og áhrif þess á loftslag verða alvarlegri með ári hverju. Grípa þarf til gríðarlega yfirgripsmikilla aðgerða ef loftslagsmarkmið eiga að nást.  

Fyrst og fremst þurfum við umfangsmikil umskipti í orku- og iðngeirum, og breytingar á lífsháttum og neyslumynstri. Auk orkuskipta þarf að ráðast í stórfellda föngun og niðurdælingu á CO₂ í berglög. Samkvæmt IPCC þarf að auka umfang slíkrar starfsemi tæplega 70-falt á heimsvísu til ársins 2050 ef takmarka á hlýnun jarðar við 1,5°C á sama tíma og unnið er að uppbyggingu endurnýjanlegra orkugjafa. Föngun og binding CO₂, hvort sem er úr útblæstri eða beint úr andrúmslofti, er ekki heildarlausn sem ein og sér bjargar okkur frá loftslagsvandanum eða gefur tilefni til að minnka umfang annarra loftslagsaðgerða en hún er talin nauðsynleg til þess að ná markmiðum okkar samkvæmt Parísarsamkomulaginu.  

Carbfix tæknin hermir eftir og flýtir fyrir náttúrulegum ferlum: CO₂ er leyst upp í vatni og dælt djúpt í basaltberglög. Með því að leysa það í vatni er komið í veg fyrir uppdrifskraft þess, og það er því bundið í jarðlögum á öruggan hátt. Yfir tveggja ára tímabil gengur CO₂ í efnasamband við málma í berginu og myndar steindir – en yfir 99% alls CO₂ á jörðinni er bundið í bergi. Carbfix er afrakstur vísindasamstarfs sem á rætur að rekja allt til ársins 2006 og hafa yfir 100 ritrýndar greinar verið gefnar út um aðferðina sem flestar eru aðgengilegar á heimasíðu fyrirtækisins.  

En til þess að loftslagsaðgerðir beri árangur þarf loftslagsbókhaldið að ganga upp. Loftslagsverkefni standa og falla með raunverulegum ávinningi þeirra fyrir loftslagið. Aðferð Carbfix er örugg, varanleg, hagkvæm og vísindalega sannreynd í gegnum alþjóðlegt samstarf, rannsóknir og prófanir. Það er ekki nóg að halda á lofti orðræðu um vísindi sem gæðastimpil. Niðurstöður úr rannsóknum þarf að nýta við beitingu tækninnar þannig að sannarlega sé hægt að staðfesta ávinning við þær aðstæður sem henni er beitt. Carbfix hefur í samstarfi við vísindasamfélagið framkvæmt rannsóknir á þeim ferlum sem aðferðin byggir á með því að framkvæma niðurdælingu í basalt, fylgjast með steinrenningu CO₂ með nákvæmum vísindalegum aðferðum og birta niðurstöðurnar í virtustu tímaritum vísindaheimsins á borð við Nature og Science. 

Þróað hefur verið vottunarkerfi fyrir Carbfix aðferðina í samræmi við ISO staðalinn sem hefur þegar verið vottað af Den Norske Veritas, sem þýðir að óháðir aðilar hafa rýnt aðferðafræðina og sannreynt að loftslagsbókhaldið gengur upp. Þar að auki hefur Carbfix aðferðin fengið alþjóðlega staðfestingu frá Puro.earth með 'Puro Standard' sem setur einar ströngustu kröfur um gæði lausna og heldur utan um vistferilsgreiningar CO₂ og langvarandi bindigetu CO₂. Þetta er mikil viðurkenning þar sem þetta er í fyrsta sinn sem kolefnisbinding þar sem CO₂ er dælt niður í jarðlög og bundið í steindum er vottuð á frjálsum kolefnismarkaði. 

Síðast en ekki síst er Carbfix um þessar mundir að sækja um starfsleyfi samkvæmt löggjöf Evrópusambandsins um geymslu CO₂ í jörðu, sem felur í sér eins konar vottun gagnvart löggjafanum. Þessu starfsleyfi þarf síðan að viðhalda með skilum á niðurstöðum úr reglubundnum mælingum til Umhverfisstofnunar sem sýna fram á að aðferðafræðin standist.  

Markmið og tilgangur Carbfix er skýr, að hafa raunveruleg jákvæð áhrif á loftslag með öruggum og sönnuðum aðferðum við að binda CO₂ í stein með því að útvíkka tæknina á heimsvísu. Alvarleiki afleiðinga loftslagsbreytinga krefst þess að loftslagsbókhald sé yfir allan vafa hafið og að aðgerðir séu mælanlega að takast á við vandann. Það er þörf á trausti til aðgerða svo loftslagsmarkmið náist.  

Ábyrgð okkar allra er mikil gagnvart þessari stærstu ógn samtímans. Fjölmiðlar þurfa að sinna ábyrgri umfjöllun um loftslagsmál, og stjórnvöld að skapa ramma sem hvetur til árangurs. Það er svo á ábyrgð okkar allra að veita aðhald og gera kröfur um metnaðarfullar aðgerðir á öllum sviðum samfélagsins. 

Höfundur Sandra ósk Snæbjörnsdóttir, Chief Scientist Carbfix

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.